Kæru félagar,
Nú er nýtt fréttabréf POWERtalk samtakanna á Íslandi loksins komið út! Smellið hér til að skoða.
Í blaðinu kennir ýmissa grasa, s.s. fróðleikur um landsþingið okkar góða 30. apríl nk., kynning á keppendum ræðukeppninnar, ásamt kemmtilegri frásögn frá Klettskonum sem ber heitið „Í lögreglufylgd á Mikladal", svo eitthvað sé nefnt.
Ég hvet ykkur til að lesa fréttabréfið og hlakka til að sjá ykkur sem flest á landsþingi!
Kær kveðja, Guðrún S. Viggósdóttir, ritstjóri
Nauthóll veitingastaður er fyrsta Svansvottaða veitingahúsið á Íslandi. Svanurinn er eitt af sterkustu umhverfismerkjum í heiminum í dag og byggist á norrænum grunni.
Í dag erum við meira og meira meðvituð um umhverfismál. Fyrirtæki sækjast eftir að sýna ábyrgð með því að fá umhverfisvottanir. Það er hægt að fá vottun í umhverfismálum eins og ISO 14000 og Svanurinn. Umhverfismerki eða vottanir eru undir ströngu eftirliti af hálfu þriðja aðila.
Almennir neytendur tengja umhverfismál oftast í flokkun á úrgangi, en þau taka einnig til orkunotkunar, efnanotkunar og fleiri þátta sem hafa áhrif á umhverfi.
Þar sem við í POWERtalk erum ábyrg samtök, þá ætlum við að taka virkan þátt í að verja umhverfi okkar. Við hvetjum því ykkur, kæru félagar, að sleppa því að panta pappírsgögn á Landsþingi og nota frekar tæknina, t.d. spjaldtölvur, síma og fartölvur.
Hlakka til að sjá sem flest á Landsþingi á Nauthól þann 30.apríl næstkomandi.
Fyrir hönd Landsþingsnefndar
Marjaana Hovi, POWERtalk deildinni Jóru á Selfossi.
Það eru aðeins nokkrir dagar þangað til skráningu lýkur á 31. landsþing POWERtalk á Íslandi. Þrítugasta apríl nk. munu félagar mæta á Nauthól til að hitta aðra félaga og taka þátt í þessari uppskeruhátíð samtakanna. Ef þú hefur ekki þegar skráð þig þá skaltu gera það strax í dag hér. Í boði verður fjölbreytt dagskrá m.a. ræðukeppni á milli deilda, en það er alltaf spennandi að sjá hver vinnur hana. Svo er það gulrótin, hvaða deild skyldi hreppa hana í ár en það er sú deild sem á hlutfallslega flesta félaga á landsþingi og í vinning er eitt gjald, heilar 17.900.- kr. svo það er til mikils að vinna kæru félagar.
Það er um að gera að nýta sér allar endurgreiðslur sem í boði eru varðandi landsþingsgjaldið. Allmörg stéttarfélög styrkja sína félagsmenn, varandi námstefnur og ættu félagar því að athuga rétt sinn í sínu stéttarfélagi. Ég vil líka minna á Minningarsjóð Ingibjargar Ástu Blomsterberg. Endilega kynnið ykkur úthlutunarreglur sjóðsins, þær eru á bls. 41 í félagatalinu, umsóknarblaðið er á heimasíðu samtakanna. Senda skal umsóknina í tölvupósti til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. eða skila henni til gjaldkera landssamtakanna á landsþingi. Kvittun fyrir landsþingsgjaldinu verður afhent við komu á landsþing.
Það er hægt að fullyrða að enginn verður svikinn af þessum degi. Eftir alla fræðsluna verður boðið upp á hátíðarkvöldverð og skemmtiatriði sem verða ekki af verri endanum, eins og allir dansa tangó ……. og svo munum við verma okkur við söng Ylju. Ætli við fáum að heyra þetta lag hérna?
Að mæta á landsþing til að fræðast og/ eða fræða aðra, skemmta sér, hitta aðra félaga og gesti, borða góðan mat og slaka á er bara dásamlegt :)
Sjáumst á landsþingi :)
Nú styttist óðum í landsþingið okkar, sem verður haldið á Nauthól 30. apríl. Á dagskrá eru öll hefðbundin landsþingsstörf, ræðukeppni og skemmtileg erindi frá POWERtalk félögum. Einnig fáum við til okkar góðan gest frá alþjóðastjórn, en Marijke Slager varaforseti III. svæðis kemur og heldur vinnustofu um „Leyndarmál hins fullkomna fyrirlesara“. Hátíðarkvöldverður með verðlaunaafhendingum, glensi og gamni verður á sínum stað og því þétt dagskrá í boði frá morgni til kvölds. Drög að dagskrá þingsins má finna hér og eru félagar hvattir til að fjölmenna á þessa uppskeruhátíð okkar allra, enda ómetanlegt að hitta félaga úr öðrum deildum og njóta alls sem þar verður í boði.
Sjáumst hress á landsþingi,
Erla Traustadóttir
Kjörforseti
Öskjuhlíðin og Nauthólsvík eru afar vinsæl útivistarsvæði sökum nálægðar sinnar við miðbæ Reykjavíkur, háskólasvæðin í Vatnsmýrinni og fjölmenn hverfi eins og Bústaðahverfið og Hlíðar.
Bærinn Nauthóll var reistur um árið 1850. Hann var eitt margra nýbýla, sem risu í nágrenni Reykjavíkur á þessum tíma. Taugaveiki kom upp á bænum í kringum aldamótin 1900 og hann var brenndur. Tóftir hans sjást enn norðan við bílastæðin.
Í síðari heimsstyrjöldinni voru miklar herbúðir og umsvif á vegum setuliðsins umhverfis flugvöllinn. Í Nauthólsvíkinni var aðstaða fyrir sjóflugvélar, sem voru mikilvægar í orrustunni um Atlantshafið. Þar var meðal annars norsk flugsveit. Minnisvarði um veru hennar hér stendur vestan þjónustuhúss Ylstrandar. Á árunum eftir styrjöldina komu upp hugmyndir um nýtingu Nauthólsvíkur sem sjóbaðsstaðar og aðstaðan var bætt en síðar voru sjóböð bönnuð vegna mengunar.
Á áttunda áratugnum var síðan heiti lækurinn, sem gekk undir ýmsum nöfnum, vinsæll unz honum var lokað 1985. Þegar hreinsun strandlengju borgarinnar fór á skrið, kviknuðu hugmyndir um að endurvekja Nauthólsvík sem sjóbaðstað og framkvæmdir hófust skömmu síðar. Ströndin var vígð sumarið 2000 og ári síðar var opnuð þjónustumiðstöð með búningsklefum, baðaðstöðu og veitingasölu. Sumarið 2012 var svo opnað eimbað. Reistir voru voldugir sjóvarnargarðar og inn fyrir þá dælt gullnum skeljasandi. Innan garðanna er fallegt lón þar sem kaldur sjór og heitt vatn renna saman í eitt. Þessar aðstæður minna meira á strendurnar við sægrænt Miðjarðarhafið en vík í nyrstu höfuðborg heims við Norður-Atlantshafið. Við ákjósanlegustu aðstæður er hitastig sjávarlónsins innan grjótgarðanna 15-19°C og pottarnir eru 30-39°C heitir. Lónið og pottarnir eru hitaðir upp með affallsvatni frá hitaveitugeymunum í Öskjuhlíð.
Markmiðið með þessum framkvæmdum var að gera Nauthólsvík að fjölbreyttu útivistarsvæði þar sem lögð er áhersla á útiveru, sólböð, sjóböð og siglingar líkt og tíðkaðist hér fyrr á árum.
Þessi vel heppnaða framkvæmd hefur mælst gríðarlega vel fyrir og ekki hægt að segja annað en að Ylströndin hafi slegið í gegn eftir að hún var opnuð. Á hverju ári hafa að meðaltali 530.000 gestir lagt leið sína þangað og flatmagað í sólinni á sólríkum sumardögum. Það er því óhætt að segja að ströndin hafi fest sig í sessi sem paradís í borgarlandinu sem laðar að jafnt innlenda sem erlenda gesti.
Öskjuhlíðin er einstök og sennilega það opna svæði í Reykjavík sem er mest áberandi og flestir þekkja. Hún er 61 metra há, stórgrýtt hæð sem skagar yfir sitt nánasta umhverfi. Efst á hæðinni sitja sex hitavatnstankar sem flestir sinna enn mikilvægu hlutverki við að geyma hitaveituvatn fyrir Reykvíkinga. Ofan og milli tankana er Perlan, einstök bygging sem var opnuð 1991. Þar er að finna safn, kaffihús og veitingastað á efstu hæðinni sem snýst löturhægt. Vinsælastir eru þó útsýnispallarnir en fáir staðir í borginni bjóða upp á betra útsýni yfir borgarlandið, sundin og fjöllin.
Öskjuhlíðin sjálf er áhugavert útivistarsvæði með fjölbreytilegu náttúrufari, merkilegum jarðminjum, einni þéttustu skógrækt í Reykjavík og einstökum mannvistarminjum frá stríðsárunum. Mikill fjöldi skógarstíga gerir Öskjuhlíðina eftirsótta fyrir göngufólk og skokkara.
Á landsþingi eigum við eftir að njóta fegurðarinnar og útsýnisins sem svæðið hefur upp á að bjóða, ásamt því að fræðast og eiga góðar stundir saman.
Við hlökkum til!
Skráning á Landsþingið er hafin og er opið fyrir skráningar til 11. apríl.