Sigríður Pálsdóttir hefur beðist lausnar frá embætti kjörforseta og hefur Aðalheiður Rúnarsdóttir þingskapaleiðari tekið við embættinu í hennar stað. Í framhaldinu hefur Jóhanna Guðjónsdóttir Jóru tekið við starfi þingskapaleiðara í stað Aðalheiðar. Landsstjórn þakkar Sigríði fyrir einstaklega gott samstarf. Einnig fá Aðalheiður og Jóhanna þakkir fyrir að bregðast svo vel til beiðni forseta og góðar óskir um farsæld í nýjum hlutverkum!
Fyrir skömmu barst okkur bréf frá varaforseta III. svæðis, Marijke Slager. Þar spurði hún landsforseta hvort búið væri að hafa fræðslu fyrir embættismenn deilda og sendi með nýtt skjal, litla handbók þar sem fjallað er um ábyrð og skyldur embætta í stuttu og hnitmiðuðu máli. Þessi handbók er nú aðgengilega félögum á vefnum, undir Aðgangur félaga. Þar er krækja á handbókina, Embættismenn - handbók um ábyrgð og skyldur, í listanum um fræðslutengt efni. Handbókin er á ensku og því væri frábært ef einhver röggsamur félagi vildi taka á sig það verk að snara henni yfir á íslensku, svo allir félagar geti nýtt sér þann fróðleik sem þar er að finna. Ef í hópnum leynist þýðandi, hafðu samband við landsstjórn.
Þriðjudaginn 20. september verður kynningarfundur POWERtalk haldinn á Café Meskí, Fákafeni 9. Fundurinn hefst kl. 20 og er opinn öllum sem vilja kynna sér starfsemi samtakanna og hvernig einstaklingsmiðuð þjálfun í framkomu, tjáningu og fundasköpum fer þar fram.
Í viðtali við Erlu Traustadóttur landsforseta POWERtalk í Fréttatímanum í dag má finna umfjöllun um samtökin og vetrarstarfið sem er nú að fara af stað í öllum deildum. Erla telur starfið í POWERtalk gera lífið mun skemmtilegra, enda fá félagar þar þjálfun, leiðsögn og verkfæri til að takast á við verkefni og aðstæður sem eru fyrir utan þægindarammann. Viðtalið má lesa í heild sinni hér.
Landsstjórn hélt fræðslufund fyrir embættimenn deilda á Hallveigarstöðum nú í vikunni. Þar kynnti fráfarandi stjórn verkefni og skyldur sem fylgja hverju embætti og veitti ýmis góð ráð sem vonandi fleyta nýjum embættismönnum ljúflega inn í vetrarstarfið.
Til að gefa öllum félögum tækifæri á að taka þátt í fundum, fræðslu og nefndarstarfi á vegum samtakanna óháð búsetu hafa deildir utan höfuðborgarsvæðisins fengið vefmyndafél til afnota. Stefnt er að því að allir viðburðir á vegum landsstjórnar verði aðgengilegir á fjarfundaformi og var embættismannafræðslan fyrsti viðburðurinn á þeirri vegferð. Fimm félagar úr Súlu og Kletti fylgdust með fundinum og vonum við að fleiri bætist við á næsta fundi, sem verður upplýsingafundur landsstjórnar á Hallveigarstöðum 14. september.