Atburðadagatal

No events

Leita á síðunni

Innskráning

Fréttir af 24. landsþingi POWERtalk á Íslandi 1.-2. maí

Tuttugasta og fjórða landsþing ITC/POWERtalk á Íslandi var haldið á Hótel Sögu í Reykjavík föstudaginn 1. maí og laugardaginn 2. maí. 2009.
Fulltrúi alþjóðastjórnar, gestur þingsins og fyrirlesari, var Mary Marshall, DC, ITC Fellow, og forseti alþjóðasamtakanna, en hún er frá Nýja Sjálandi.
Á þinginu fór fram ræðukeppni fulltrúa níu deilda, og ennfremur voru flutt fræðsluerindi með vinnustofum, sem voru alfarið í höndum POWERtalk félaga.
Á félagsmálahluta þingsins voru m.a. fluttar skýrslur nefnda, samþykktar tíu fyrirliggjandi breytingatillögur á félagslögum og gildandi reglum. Kosin stjórn og kjörnefnd fyrir næsta starfsár.
Þinginu lauk með hátíðakvöldverði laugardaginn 2. maí. Veislustjóri var Gyða Steingrímsdóttir, Ísafold. Heiðursgestur forseta var dr. Ingileif Jónsdóttir, sem flutti ávarp.
Forseti afhenti Gunnjónu Unu Guðmundsdóttur, Korpu/Sögu,  "Úlfinn", viðurkenningu fyrir útbreiðslu og kynningu.
Verðlaun fyrir fjölgun félaga í deild á starfsárinu hlaut Fífa í Kópavogi. Harpa hlaut AP-mats verðlaunin og hreppti að auki "Gulrótina" fyrir hlutfallslega bestu mætingu deildar á landsþing.
Mary Marshall, forseti alþjóðasamtakanna, sá um innsetningu viðtakandi stjórnar landssamtakanna.
Þingið sóttu alls 57 félagar. Umsjónarmaður landsþingsins var Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Fífu.

Ávarp Mary Marshall, alþjóðaforseta við setningu 24. landsþings 1. maí.

 

Ágæti forseti og félagar í íslensku landssamtökunum

Ég færi öllum félögum í íslensku landssamtökunum kærar kveðjur frá alþjóðastjórn og það er mér sérstakur heiður að vera meðal ykkar þessa helgi.
  Ég hylli ykkur, djörfu dugnaðarforkar. Djarfir dugnaðarforkar gera sér grein fyrir því að það er alls ekki auðvelt að ná markmiðum sínum eða samtakanna. Lengi getur vont að versnað áður en það batnar og þess vegna látum við stundum staðar numið. Þegar það gerist, þegar við látum undan, þá staðnæmumst við ekki. Við missum fótfestuna.
  Þið hafið ekki látið staðar numið þrátt fyrir allt það sem hefur gengið á í heiminum og þá sérstaklega hér á Islandi, undanfarið eitt og hálft ár. Að vera samankomin hér í dag er vitnisburður um djörfung ykkar og dug.
  Umskipti, sem oft virðast ógnandi í fyrstu, geta orðið hvati til að íhuga nýjar og betri leiðir.
  Djarfir dugnaðarforkar ná sér fljótt á strik aftur eftir mótlæti og áföll, sem verða aldrei umflúin. Einkunnarorð þeirra er að læra af mistökunum
  Þegar horft er til framtíðar er oft erfitt að gera sér fulla grein fyrir afleiðingum gerða okkar. Þess vegna er djörfung mikilvæg. Við verðum að temja okkur að framkvæma hlutina þrátt fyrir ríkjandi óvissu. Við þurfum jafnframt að hafa kjark til að breyta um stefnu þegar nauðsyn krefur - áræði til að láta hið þekkta og kunnuglega lönd og leið.
  Sjáið fyrir ykkur Thomas Edison. Heimsfrægan uppfinningarmanninn. Hann var að tapa í kapphlaupinu við tímann að finna upp ljósperuna. Blaðamaður var mættur á tilraunastofuna hans til að berja augum kraftaverk, en það var ekkert að sjá. Hugsið ykkur líðanina. Frægur hugvitsmaður - gjörsamlega misheppnaður. En hvernig brást Edison við? Hann dró upp minnisbók þar sem skráðar voru prófanir á meira en þrjú þúsund efnistegundum í leitinni að rétta efninu í glóðarþráð perunnar.
  „Það hlýtur að draga úr þér kjarkinn að mistakast oftar en þrjú þúsund sinnum?”, spurði blaðamaðurinn. Flest okkar hefðu líklega lagt árar í bát, en hverju svaraði Edison? „Alls ekki, því mér mistókst ekki mörg þúsund sinnum heldur þekki ég nú yfir þrjú þúsund aðferðir sem ganga ekki upp“. Edison leit á hver mistök sem skref til árangurs.
  Einn veikleiki nútímasamfélags er þráhyggjan og krafan um tafarlausa fullnægju - við viljum fá - og það undireins. Á langri ævi hefur mér lærst að það er aðeins eitt í lífinu sem veitir tafarlausa fullnægju - það er súkkulaði. Hugrekki er að þrjóskast við og halda stöðugt áfram hvað sem á dynur (með súkkulaðimola í farteskinu til að létta róðurinn!)
  Til hamingju, íslensku félagar – Sannarlega djarfir dugnaðarforkar
  Munið, að þeir sem hafa ekki hugrekki til að gera mistök munu aldrei upplifa sælutilfinningu sigursins.
                                                   Mary Marshall

Hápunktur vetrarstarfsins.

 

Stefnumót á Landsþingi 1. og 2. maí 2009 -
uppskeruhátíð og  þátttökukeppni.


Tuttugasta og fjórða landsþing samtakanna verður haldið föstudaginn 1. maí og laugardaginn 2. maí n.k. á Hótel Sögu í Reykjavík.

Sérstakur gestur þingsins er forseti alþjóðasamtaka POWERtalk International, Mary Marshall, frá Nýja-Sjálandi, sem ávarpar þingið, flytur fréttir frá alþjóðastjórn og leiðbeinir í fræðsludagskrá.
Öll dagskráratriði verða í höndum POWERtalk félaga. Keppt verður til úrslita í ræðumennsku þar sem siguvegarar allra deilda taka þátt. Frábærir fyrirlestrar með virkri þátttöku gesta og félagsmálahluti, þar sem taka þarf afstöðu í mikilvægum málum, og kjósa nýja stjórn.
Við hátíðarkvöldverð á laugardagskvöldinu verða skemmtiatriði, verðlaunaafhendingar og innsetning nýrrar stjórnar. 

Efnt er til þátttökukeppni þar sem sú deild sem mætir með hlutfallslega flesta félaga á landsþingið fær eitt þátttökugjald ókeypis, en skráning fer fram hjá umsjónarmanni, sem er Guðrún Barbara Tryggvadóttir, Fífu.
Sameinumst á landsþing, sendum þau skilaboð út til alþjóðastjórnar að Powertalk samtökin halda sínu striki á Íslandi þótt á móti blási , við stöndum sameinaðar allt af okkur.Boðið er upp á skipta greiðslunni í tvennt, sé þess óskað.

Þátttökugjald fyrir allt þingið er kr. 17.500, en einnig er hægt að skrá sig á hluta þings.  Þá er verð sem hér segir:  Föstudagur  sér kr. 7.500.  Laugardagur, innifalinn hátíðarkvöldverður kr. 12.000 (drykkjarföng ekki innifalin.)  Hátíðardagskrá og kvöldverður á laugardagskvöldi kr. 7.500

Síðustu forvöð að skrá sig núna. 

Úrslit ræðukeppni á landsþingi 1. maí

Lenka Zimmermanová, fulltrúi Fífu í Kópavogi, varð sigurvegari í ræðukeppni  POWERtalk  á Íslandi, sem fór fram á 24. landsþingi samtakanna á Hótel Sögu föstudaginn 1. maí.
Ræðuefnið var Börn og kreppa og heiti hvatningarræðu Lenku var "Hver á að vera brúin yfir boðaföllin?".

Í öðru og þriðja sæti voru Ásta Svavarsdóttir, fulltrúi Flugu í Mývatnssveit og Kristín Bára Gunnarsdóttir, fulltrúi Jóru á Selfossi.
Keppendur voru sex og dómarar núverandi og fyrrverandi félagar í samtökunum.