Atburðadagatal

No events

Leita á síðunni

Innskráning

Landsþing - samantekt, sigurvegarar og ný stjórn

32. landsþing POWERtalk samtakanna á Íslandi fór fram dagana 5.-6. maí á Hótel Laugarbakka í Miðfirði. Fundargestir fóru að streyma að eftir hádegi á föstudegi og tók köld þoka á móti fólki. Hún hafði þó ekki áhrif á góða skapið og var gleði og eftirvænting í loftinu þegar gesti bar að garði. Hótel Laugarbakki er nýtt hótel og var öll aðstaða og þjónusta þar til fyrirmyndar.

Mary Flentge, kjörforseti alþjóðastjórnar, var heiðursgestur þingsins og flutti hún ávarp við setningu þingsins. Þá tók við félagsmálahluti þingsins með skýrslum nefnda, lagabreytingum og kosningu stjórnar. Boðið var upp á ljúffengan kvöldverð og eftir hann fór fram æsispennandi ræðukeppni þar sem 5 félagar sýndu snilli sína í ræðumennsku, en úrslit ræðukeppninnar voru kunngerð við hátíðarkvöldverð á laugardeginum. Eftir ræðukeppnina var boðið upp á opinn málfund þar sem félagar fengu tækifæri til að ræða það sem brynni á þeim. Mynduðust góðar og mikilvægar umræður um væntingar og framtíðarhorfur félaga til samtakanna.

Laugardagurinn hófst með dýrindis morgunverðarhlaðborði og svo tók við vinnustofa frá alþjóðastjórn sem bar heitið “Molar” lærimeistarans, í umsjá Mary Flentge. Í kjölfarið fylgdu fleiri áhugaverð og skemmtileg fræðsluerindi, t.d. fræddi Sigrún Sigurhjartardóttir, Korpu, fundargesti um virka hlustun, Anna Kristín Kjartansdóttir, Jóru, hvatti félaga til að taka af skarið og Steinunn A. Ólafsdóttir, Súlu, sagði frá því hvernig áhugahvetjandi samtalstækni getur gagnast fólki. Sólrún Ólafsdóttir, Kletti, stjórnaði skemmtilegum keppnisdagskrárlið sem bar yfirskriftina “Glæpurinn”. Félagar völdu siguratriðið sem var stuttmynd frá Fífufélögum, en hana má sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=HSYFOceb69Y

Í lok dagsins var haldin málstofa undir stjórn Ragnheiðar Ástu Sigurðardóttur, Fífu, þar sem fjallað var um kynningar-, markaðs- og útbreiðslumál samtakanna. Eftir það héldu félagar ýmist í heita pottinn eða á hótelherbergin til að punta sig fyrir hátíðarkvöldverðinn sem allir biðu spenntir eftir. Auður I. Ottesen, Jóru, fór á kostum sem veislustjóri kvöldsins. Hrafnhildur Ýr Víglundsdóttir og Guðmundur Hólmar Jónsson fluttu tónlistaratriði við góðar undirtektir. Sigurvegari ræðukeppninnar var tilkynntur, heiðurinn hlaut Þórunn Kristín Kjærbo, Fífu, sem flutti skemmtiræðu sem bar nafnið “Fari það í heitasta helvíti”. AP verðlaunin féllu Hörpum í skaut, Saga hlaut gulrótina fyrir bestu mætingu á landsþing, Litlu Freyju fengu Súlur fyrir mesta fjölgun félaga og Úlfynjan var afhent Aðalheiði Rúnarsdóttur fyrir að vekja athygli á íslensku samtökunum innan alþjóðasamtakanna. Síðast en ekki síst var fráfarandi stjórn þakkað fyrir vel unnin störf á árinu og ný stjórn var sett inn í embætti.


Stjórn landssamtaka POWERtalk á Íslandi fyrir starfsárið 2017-2018 er þannig skipuð:

Aðalheiður Rúnarsdóttir, Korpu, landsforseti

Sigríður Pálsdóttir, Jóru, kjörforseti

Ragnheiður Ásta Sigurðardóttir, Fífu, varaforseti

Þórunn Kristín Kjærbo, Fífu, ritari

Halldóra Magnúsdóttir, Hörpu, gjaldkeri

Með POWERtalk kveðju

Þórunn Kristín Kjærbo, ritari