Atburðadagatal

No events

Leita á síðunni

Innskráning

Ertu á leið á Landsþing 2017?

Nú styttist heldur betur í Landsþing POWERtalk á Íslandi sem verður haldið að Laugarbakka í Miðfirði 5.-6.maí nk. Það er alltaf gaman þegar Landsþingið er haldið utan borgarmarkanna því þá myndast öðruvísi stemmning á meðal þátttakenda og félagar „neyðast“ til að hittast utan dagskrár. En hvað gerir hinn almenni félagsmaður á Landsþingi?


Gott er að vera mættur í tíma og vera búinn að koma sér fyrir á herbergjum áður en formleg dagskrá hefst. Við skráningu landsþingsgesta er landsþingsheftið afhent sem m.a. inniheldur dagskrá þingsins og skýrslur frá embættismönnum og nefndum. Þar er einnig að finna starfsreglur þingsins sem gott er að kynna sér. Þingsetning verður kl. 18:00 á föstudagskvöld og er æskilegt að vera þá kominn í sæti. Deildir eru kynntar í heild sinni þ.e. félagar eru ekki kynntir hver og einn heldur standa þátttakendur deildar saman á fætur. Þingskapaleiðari stjórnar því þegar farið er með heit POWERtalk samtakanna og eru allir félagar hvattir til að taka hátt undir, hátt og snjallt. Engin þörf er þó á að læra heitið utanbókar því það verður í landsþingsgögnum.


Í félagsmálahluta þingsins stýrir Erla Traustadóttir forseti landssamtakanna dagskránni. Í upphafi verða fluttar skýrslur embættismanna og formanna fastra nefnda.  Nokkrar þeirra eru einnig í landsþingssheftinu og því auðvelt að kynna sér efni þeirra. Félagsmönnun er frjálst að koma með fyrirspurnir og tjá sig þegar forseti gefur það til kynna en í atkvæðagreiðslum eru það einungis landsþingsfulltrúar deilda (oftast forsetar) sem hafa atkvæðisrétt. Undir liðnum Önnur mál geta félagar komið sínum hugðarefnum á framfæri.  Gilda þá sömu reglur og á deildarfundum (biðja um orðið með því að rétta upp hendi - standa upp og kynna sig - ávarpa og beina máli sínu til forseta o.s.frv.). Rétt er að geta þess að félagi getur ekki lagt fram tillögur í eigin nafni en getur komið þeim fram í gegnum landsþingsfulltrúa sinnar deildar.


Dagskrá laugardagsins felur í sér fræðslu og vinnustofur og eru félagar hvattir til að taka virkan þátt eins og stjórnendur bjóða uppá. Að loknum hátíðarkvöldverði á laugardagskvöld er m.a. afhending viðurkenninga og innsetning nýrrar stjórnar en forseti slítur þinginu í lok dagskrár sem eru áætluð um kl. 23. Ekki er loku fyrir það skotið að félagar taki nokkur dansspor áður en haldið verður til hvílu. Ef þið eruð með óskalög þá getið þið sett þau inn á Spotify-lista sem er inn á Spjallherberginu okkar á Facebook.


Dagskrárnefnd og stjórn landssamtakanna eru umhverfisvæn og vilja því lágmarka þann pappír sem notaður er á þinginu. Tæknin er frábær til að hjálpa okkur í að nota sem minnst af pappír. Kjörforseti mun senda netslóð á alla félaga fyrir landsþing þar sem hægt verður að nálgast glærur og annað efni sem tengist þinginu. Það er því höndum hvers og eins félaga hvort hann vilji prenta út efni (annað en dagskrá og skýrslur) áður en haldið er á Landsþing.


Það síðasta sem þið þurfið að gera áður en þið leggið af stað er því að kanna hvort það sé efni sem þið viljið prenta út - og athuga hvort sundfötin og nafnspjaldið sé ekki örugglega í farteskinu. Það er nefnilega heitur pottur á Hótel Laugarbakka


Hlakka til að sjá ykkur á Landsþingi 2017.

Steinunn A. Ólafsdóttir

fulltrúi í landsþingsnefnd


P.S. Ég skora á ykkur að vera dugleg að setjast hjá fólki úr öðrum deildum á matmálstímum og spjalla við hina og þessa í kaffitímunum, ekki síst erlenda gestinn okkar. Það er jú hluti af þessu öllu saman :)