Ágætu félagar.
Landsstjórn boðar til upplýsingafundar og almenns félagsfundar á fimmtudag, 21. september 2017, kl. 18. Fundurinn verður haldinn á Hótel Íslandi, Ármúla 9 í Reykjavík. Dagskrá fundarins má sjá hér.
Allir félagar sem koma á fundinn eru beðnir að skrá sig í þar til gert skráningarform hér. Mikilvægt er fyrir okkur að vita um fjölda fundargesta, bæði vegna fjar- fundar og veitinga. Frestur til skráningar er til hádegis á miðvikudag, 20. september 2017.
Lög samtakanna (og gildandi reglur) þarfnast uppfærslu vegna slita alþjóðasamtakanna. Lögin sem kosið verður um á fundinum þann 21.september innihalda engar afgerandi efnislegar breytingar. Einungis er verið að strika út vísun í alþjóðasamtökin. Heildarendurskoðun laga verður lögð fyrir á landsþingi í vor. Félagar eru beðnir að kynna sér þær breytingar sem greidd verða atkvæði um á fundinum.
Log-eru.pdf sýnir lög samtakanna eins og þau voru samþykkt á síðasta landsþingi, þar sem striki hefur verið slegið yfir þau atriði sem vísa til alþjóðasamtakanna.
Log-verda.pdf sýnir lögin eftir útstrikun.
Gildandi-eru.pdf sýnir gildandi reglur samtakanna eins og þær voru samþykktar á síðasta landsþingi, þar sem striki hefur verið slegið yfir þau atriði sem vísa til alþjóðasamtakanna.
Gildandi-verda.pdf sýnir gildandi reglur eins og þær líta út eftir útstrikun.
Við í landsstjórn vonumst til að sjá sem flesta félaga á fimmtudag, á Hótel Íslandi eða í fjarfundi!
Með bestu kveðju fyrir hönd landsstjórnar
Aðalheiður Rúnarsdóttir
Forseti POWERtalk 2017-2018
32. landsþing POWERtalk samtakanna á Íslandi fór fram dagana 5.-6. maí á Hótel Laugarbakka í Miðfirði. Fundargestir fóru að streyma að eftir hádegi á föstudegi og tók köld þoka á móti fólki. Hún hafði þó ekki áhrif á góða skapið og var gleði og eftirvænting í loftinu þegar gesti bar að garði. Hótel Laugarbakki er nýtt hótel og var öll aðstaða og þjónusta þar til fyrirmyndar.
Mary Flentge, kjörforseti alþjóðastjórnar, var heiðursgestur þingsins og flutti hún ávarp við setningu þingsins. Þá tók við félagsmálahluti þingsins með skýrslum nefnda, lagabreytingum og kosningu stjórnar. Boðið var upp á ljúffengan kvöldverð og eftir hann fór fram æsispennandi ræðukeppni þar sem 5 félagar sýndu snilli sína í ræðumennsku, en úrslit ræðukeppninnar voru kunngerð við hátíðarkvöldverð á laugardeginum. Eftir ræðukeppnina var boðið upp á opinn málfund þar sem félagar fengu tækifæri til að ræða það sem brynni á þeim. Mynduðust góðar og mikilvægar umræður um væntingar og framtíðarhorfur félaga til samtakanna.
Laugardagurinn hófst með dýrindis morgunverðarhlaðborði og svo tók við vinnustofa frá alþjóðastjórn sem bar heitið “Molar” lærimeistarans, í umsjá Mary Flentge. Í kjölfarið fylgdu fleiri áhugaverð og skemmtileg fræðsluerindi, t.d. fræddi Sigrún Sigurhjartardóttir, Korpu, fundargesti um virka hlustun, Anna Kristín Kjartansdóttir, Jóru, hvatti félaga til að taka af skarið og Steinunn A. Ólafsdóttir, Súlu, sagði frá því hvernig áhugahvetjandi samtalstækni getur gagnast fólki. Sólrún Ólafsdóttir, Kletti, stjórnaði skemmtilegum keppnisdagskrárlið sem bar yfirskriftina “Glæpurinn”. Félagar völdu siguratriðið sem var stuttmynd frá Fífufélögum, en hana má sjá hér: https://www.youtube.com/watch?v=HSYFOceb69Y
Eins og venja er við landsþing kom út fréttabréf samtakanna 3. maí síðast liðinn. Að þessu sinni voru það Aðalheiður Rúnarsdóttir, Korpu, og Ólafur Jón Jónsson, Hörpu, sem sáu um fréttabréfið, efnisöflun, ritstjórn og uppsetningu.
Meðal efnis í þessu tölvublaði eru, auk samantekta um starfsárið sem er að ljúka, upplýsingar um keppendur í ræðukeppni samtakanna, frásagnir nýrra félaga af því sem starfið í samtökunum hefur gefið þeim, umfjöllun um nefndarstörf og Landsþingsspilið 2017. Félagar eru hvattir til að fletta fréttabréfinu, þar er margt fróðlegt.
Nú styttist heldur betur í Landsþing POWERtalk á Íslandi sem verður haldið að Laugarbakka í Miðfirði 5.-6.maí nk. Það er alltaf gaman þegar Landsþingið er haldið utan borgarmarkanna því þá myndast öðruvísi stemmning á meðal þátttakenda og félagar „neyðast“ til að hittast utan dagskrár. En hvað gerir hinn almenni félagsmaður á Landsþingi?
Gott er að vera mættur í tíma og vera búinn að koma sér fyrir á herbergjum áður en formleg dagskrá hefst. Við skráningu landsþingsgesta er landsþingsheftið afhent sem m.a. inniheldur dagskrá þingsins og skýrslur frá embættismönnum og nefndum. Þar er einnig að finna starfsreglur þingsins sem gott er að kynna sér. Þingsetning verður kl. 18:00 á föstudagskvöld og er æskilegt að vera þá kominn í sæti. Deildir eru kynntar í heild sinni þ.e. félagar eru ekki kynntir hver og einn heldur standa þátttakendur deildar saman á fætur. Þingskapaleiðari stjórnar því þegar farið er með heit POWERtalk samtakanna og eru allir félagar hvattir til að taka hátt undir, hátt og snjallt. Engin þörf er þó á að læra heitið utanbókar því það verður í landsþingsgögnum.
Í félagsmálahluta þingsins stýrir Erla Traustadóttir forseti landssamtakanna dagskránni. Í upphafi verða fluttar skýrslur embættismanna og formanna fastra nefnda. Nokkrar þeirra eru einnig í landsþingssheftinu og því auðvelt að kynna sér efni þeirra. Félagsmönnun er frjálst að koma með fyrirspurnir og tjá sig þegar forseti gefur það til kynna en í atkvæðagreiðslum eru það einungis landsþingsfulltrúar deilda (oftast forsetar) sem hafa atkvæðisrétt. Undir liðnum Önnur mál geta félagar komið sínum hugðarefnum á framfæri. Gilda þá sömu reglur og á deildarfundum (biðja um orðið með því að rétta upp hendi - standa upp og kynna sig - ávarpa og beina máli sínu til forseta o.s.frv.). Rétt er að geta þess að félagi getur ekki lagt fram tillögur í eigin nafni en getur komið þeim fram í gegnum landsþingsfulltrúa sinnar deildar.
Dagskrá laugardagsins felur í sér fræðslu og vinnustofur og eru félagar hvattir til að taka virkan þátt eins og stjórnendur bjóða uppá. Að loknum hátíðarkvöldverði á laugardagskvöld er m.a. afhending viðurkenninga og innsetning nýrrar stjórnar en forseti slítur þinginu í lok dagskrár sem eru áætluð um kl. 23. Ekki er loku fyrir það skotið að félagar taki nokkur dansspor áður en haldið verður til hvílu. Ef þið eruð með óskalög þá getið þið sett þau inn á Spotify-lista sem er inn á Spjallherberginu okkar á Facebook.
Dagskrárnefnd og stjórn landssamtakanna eru umhverfisvæn og vilja því lágmarka þann pappír sem notaður er á þinginu. Tæknin er frábær til að hjálpa okkur í að nota sem minnst af pappír. Kjörforseti mun senda netslóð á alla félaga fyrir landsþing þar sem hægt verður að nálgast glærur og annað efni sem tengist þinginu. Það er því höndum hvers og eins félaga hvort hann vilji prenta út efni (annað en dagskrá og skýrslur) áður en haldið er á Landsþing.
Það síðasta sem þið þurfið að gera áður en þið leggið af stað er því að kanna hvort það sé efni sem þið viljið prenta út - og athuga hvort sundfötin og nafnspjaldið sé ekki örugglega í farteskinu. Það er nefnilega heitur pottur á Hótel Laugarbakka
Hlakka til að sjá ykkur á Landsþingi 2017.
Steinunn A. Ólafsdóttir
fulltrúi í landsþingsnefnd
P.S. Ég skora á ykkur að vera dugleg að setjast hjá fólki úr öðrum deildum á matmálstímum og spjalla við hina og þessa í kaffitímunum, ekki síst erlenda gestinn okkar. Það er jú hluti af þessu öllu saman :)
Ágætu félagar!
Rúmar fjórar vikur í að landsþing verði sett, nánar til tekið á Hótel Laugarbakka í Miðfirði 5. maí. Loksins eru drög að dagskrá þingsins tilbúin til birtingar - og sem betur fer eru enn laus pláss á hótelinu svo þau sem eiga eftir að skrá sig á þingið eru hvött til að gera það! Líka, og kannski sérstaklega, nýrri félagar í samtökunum. Skráning fer fram hér.
Á dagskrá eru hefðbundin landsþingsstörf í bland við eitthvað nýtt og fræðandi. Ræðukeppni, skemmtileg erindi frá POWERtalk félögum og Glæpasögur. Við fáum til okkar góðan gest frá alþjóðastjórn, en Mary Flentge, kjörforseti ITC, verður gestur á þinginu og heldur vinnustofuna „Molar um leiðsögn“ (e. Mentoring nuggets). Á laugardagskvöldinu er Hátíðarkvöldverður þar sem ræðumeistari samtakanna verður kynntur og stjórn næsta starfsárs sett í embætti með viðhöfn.
Drög að dagskrá þingsins má sjá hér og eru félagar hvattir til að fjölmenna á uppskeruhátíð okkar allra, enda ómetanlegt að hitta félaga úr öðrum deildum og njóta alls sem þar verður í boði.
Hittumst hress á landsþingi,
Aðalheiður Rúnarsdóttir
kjörforseti Landssamtaka POWERtalk á Íslandi 2016-2017